*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 18. nóvember 2021 17:57

Rekstrarbati hjá Iceland Seafood

Sala í Suður-Evrópu hefur tekið við sér hjá Iceland Seafood en sameiningar í Bretlandi hafa reynst kostnaðarsamari en búist var við.

Ritstjórn
Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood.
Eyþór Árnason

Rekstur Iceland Seafood hefur tekið við sér undanfarna mánuði en heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á reksturinn. Hagnaður félagsins nam 5,6 milljónum evra fyrstu níu mánuði ársins miðað við 1 milljón evra á sama tíma fyrir ári.

Tekjur Iceland Seafood  jukust um 16% á þriðja ársfjórðungi á milli ára og námu 111,3 milljónum evra. Söluvöxtur er jafn mikill fyrstu níu mánuði ársins eða 16% og nema tekjur félagsins á því tímabili 320 milljónum evra. 

Í nýbirtu uppgjöri félagsins kemur fram að sala í Suður-Evrópu, einu af lykilmarkaðssvæðum félagsins, hafi tekið við sér frá marsmánuði, sér í lagi sala á léttsöltuðum þorski og rækju. Á Bretlandi hafi sameiningar hins vegar reynst flóknari og kostnaðarsamari en búist var við. Brexit og COVID-19 hafi haft margvísleg áhrif á reksturinn til að mynda í gegnum breskan vinnumarkaða og erfiðleika við flutninga.

Félagið gerir ráð fyrir að hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta nemi 12-16 milljónum evra á árinu 2021 en var til samanburðar 5 milljónir evra árið 2020 og 11 milljónir árið 2019. Hins vegar er sá fyrirvari gerður að heimsfaraldurinn hafi ekki óvænt neikvæð áhrif á reksturinn á síðustu tveimur mánuðum ársins sem eru mikilvægir í rekstrinum.