Nánast allt rekstrarfé bandaríska bílaframleiðandans General Motors (GM) var uppurið áður en félagið fékk 13,4 milljarða dala lán frá bandarískum yfirvöldum fyrir áramót.

Þetta kom fram í máli Rick Wagoner, forstjóra GM í dag en  hann sagði að GM hefði nú tryggt sér nægt fjármagn til að starfa út mars á þessu ári en leitast væri eftir frekar fjármögnun þessa dagana.

Þá sagði Wagoner að GM leitaðist eftir því að selja SAAB út úr samstæðunni.

Þegar GM þáði lán frá hinu opinbera fyrir áramót fylgdu þeir skilmálar með að félagið þyrfti fyrir lok mars að sýna fram á rekstaráætlun út árið þar sem sýnt væri fram á að félagið gæti rekið sig áfram.

GM skuldar nú um 36 milljarða dali en Wagoner sagði að á næstu vikum og mánuðum yrði unnið í því að semja um skuldir félagins auk þess sem leitað yrði eftir samþykkti hluthafa til að breyta skuldum í hlutafé.