*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 18. maí 2018 17:49

Rekstrarfélag Argentínu gjaldþrota

BOS ehf. sem haldið hefur utan um rekstur veitingastaðarins Argentínu hefur verið lýst gjaldþrota.

Ritstjórn
Björn Ingi Hrafnsson sagðist hafa hvatt starfsmenn Argentínu til að leita til síns stéttarfélags vegna vangoldinna launa.
Birgir Ísl. Gunnarsson

BOS ehf., rekstraraðili veitingastaðarins Argentínu, hefur verið lýst gjaldþrota. Á vef Ríkisskattstjóra kemur fram að félagið hafi verið lýst gjaldþrota þann 2. maí síðastliðinn og Helgi Jóhannesson skipaður skiptastjóri félagsins.

Veitingastaðnum var lokað í byrjun apríl. Samkvæmt færslu á Facebook síðu Argentínu sprungu lagnir á veitingastaðnum og ráðast þyrfti í framkvæmdir.

Björn Ingi Hrafnsson, eignaðist reksturinn í október. Hann sagði í viðtali við Fréttablaðið þann 12. apríl, eftir að staðnum var lokað, að hann væri nú ótengdur BOS þar sem nýir eigendur hefðu tekið við rekstrinum en vildi ekki greina frá því hver þeir væru.

BOS skuldaði þá starfsmönnum laun og höfðu starfsmenn leitað til Eflingar vegna þess.

Þá hélt Árni Harðarson, einn af forsvarsmönnum Fjárfestingafélagsins Dalsins, því fram að Björn Ingi hefði boðist til að greiða 6 milljón króna skuld við Dalinn með inneign á Argentínu.