Miklatorg hf., sem rekur IKEA verslunina á Íslandi, hefur höfðað dómsmál á hendur fimm manns, þremur konum og tveimur karlmönnum, sem hafa undanfarin ár stundað þjófnað úr versluninni. Greint var frá málinu í fjölmiðlum í vor. Virðist þjófnaðurinn hafa verið þaulhugsaður og skipulagður.

Í tilkynningu frá Miklatorgi segir að málið sé einnig til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. IKEA á Íslandi krefst þess að fimmmenningarnir bæti það tjón sem þeir hafa valdið félaginu. Refsimeðferð málsins er hins vegar í höndum lögreglu.

Miklatorg segir að fimmmenningarnir hafi yfirleitt beitt þeirri aðferð að taka strikamerki af ódýrum vörum í verslun IKEA og líma þau yfir strikamerki á töluvert dýrari vörum. Síðan hafi þau farið á afgreiðslukassa og látið skanna vörurnar og greitt þannig verð ódýrari vörunnar. Þau hafi svo farið út úr versluninni og snúið aftur sama dag eða nokkrum dögum síðar og þá verið búin að taka ranga strikamerkið af. Þau hafi nýtt sér opnar skilareglur IKEA til að skila vörunum á fullu verði án þess að framvísa kaupnótum.

„Allur þjófnaður, og sérstaklega svo þaulhugsaður þjófnaður eins og hér hefur komist upp, eykur kostnað. Bæði er það beint tjón vegna þess að vörur tapast en einnig vegna þess að auka þarf öryggi í versluninni. Það er keppikefli IKEA á Íslandi að halda vöruverði lágu og mikilvægur þáttur í því er að koma í veg fyrir vörurýrnun vegna þjófnaðar án þess að það komi niður á venjulegum viðskiptavinum. Þessi dómsmál eru höfðuð til að koma í veg fyrir að svona atvik endurtaki sig. Þess verður áfram gætt að viðskiptavinir IKEA á Íslandi njóti besta skipti- og skilaréttar sem völ er á,“ segir í tilkynningu frá Miklatorgi.