Neytendastofa hefur ákveðið að sekta Úranus ehf. vegna villandi auglýsinga um ábyrgðartíma bifreiða. Toyota á Íslandi ehf. kvartaði yfir auglýsingum félagsins.

Með ákvörðun Neytendastofu frá árinu 2014 var komist að þeirri niðurstöðu að auglýsingar Úranusar ehf. væru villandi. Úranus auglýsti fimm ára auglýsingartíma bifreiða en Neytendastofa taldi það vera villandi þar sem ekki var tilgreint að fimm ára ábyrgðartími byrjaði að líða frá skráningardegi bifreiða, en ekki við afhendingu.

Úranus breytti lítilega orðalagi auglýsingarinnar en Neytendastofa taldi þær ennþá villandi um ábyrgðartíma bifreiðanna. Var því talið að Úranus hefði brotið gegn fyrri ákvörðun Neytendastofu og var því gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 300.000 vegna brotsins.

Athugasemd: Upphaflega stóð í fréttinni að rekstrarfélag Stóru bílasölunnar hefði verið sektað. Upplýsingar um að Úranus ræki Stóru bílasöluna voru fengnar úr frétt Neytendastofu frá árinu 2014. Fréttinni var breytt eftir að upplýsingar bárust frá eigendum Stóru bílasölunnar um að engin eignartengsl væru milli Úranusar og Stóru bílasölunnar. Samkvæmt upplýsingum frá lögfræðingi Úranusar er ætlunin að kæra ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Túlkun Neytendastofu sé óþarflega ströng og geri stuttar auglýsingar ómögulegar. Auglýsingu hafi þegar verið breytt þegar ákvörðun var tekin og Úranus alltaf skýrt með það að ábyrgð er frá skráningardegi, sem er í flestum tilvikum aðeins nokkrum vikum, í mesta lagi, frá afhendingu.