Rekstrarfélag Tíu ellefu ehf, sem rekur verslanir 10-11, hefur samið við Advania (áður Skýrr) um heildarlausn í hugbúnaði, rekstri og þjónustu við upplýsingatækniumhverfi sitt. Þar á meðal eru verslunarkerfið LS Retail og fjárhagslausnin Microsoft Dynamics NAV.

Rekstrarfélag Tíu ellefu ehf. á og rekur 21 verslun undir vörumerkinu 10-11 og eina verslun undir vörumerkinu Inspired by Iceland. Verslanir 10-11 eru í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjanesbæ og á Akureyri. Þær eru allar opnar allan sólahringinn, nema verslunin í Firði.

Haft er eftir Árna Pétri Jónssyn, forstjóra forstjóri Rekstrarfélags Tíu ellefu ehf, í tilkynningu að Advania og 10-11 hafi lengi verið í nánu samstarfi á sviði upplýsingatækni, meðal annars þegar kemur að hugbúnaðarlausnum frá Microsoft. Advania sé sömuleiðis leiðandi aðili í hýsingu og rekstri kassakerfa og tengdra hugbúnaðarlausna. „Það hentar okkur vel að útvista jaðarþáttum í starfseminni með þessum hætti og einbeita okkur að kjarnastarfsemi,” segir Árni Pétur.