Björn Zoëga, aðalframkvæmdastjóri lækningasviðs einkarekna heilbrigðisfyrirtækisins GHP í Svíþjóð og fyrrverandi forstjóri Landspítalans, segir auknar fjárveitingar til heilbrigðismála eða aukinn einkarekstur ekki endilega koma til móts við vandamál heilbrigðiskerfisins. Huga þurfi frekar að aukinni samþættingu innan kerfisins til að ná fram aukinni hagkvæmni í rekstri þess, einkum með uppbyggingu heildstæðs upplýsingakerfis.

Þurfum að mæla árangurinn

„Heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir mörgum áskorunum og að öllum líkindum er það undirfjármagnað, enda nýtur kerfið ekki stærðarhagkvæmni. En þannig sem vandamálin á Íslandi blasa við mér held ég að þau leysist ekki eingöngu með því að dæla pening í kerfið. Peningarnir þurfa að vita hvert þeir eiga að fara svo að þeir geri sem mest gagn. Og til þess að fjármagnsnýtingin sé hámörkuð þarf að vera meiri samfella í upplýsingagjöf í heilbrigðiskerfinu,“ segir Björn.

„Það er oft talað um að neytendasjónarmiðið þurfi að ráða för í heilbrigðiskerfinu; að sjúklingurinn fái þá þjónustu sem hann þarf og hafi sem mest val um það hvert hann sækir þjónustuna. En hvernig getur hann valið það sem hann vill þegar það eru engar upplýsingar um það hvernig gengur hjá viðkomandi heilbrigðisstofnun, hvort sem það er einkaaðili eða opinber aðili?

Það eru í raun og veru þrjú kerfi í heilbrigðiskerfinu: opinbera spítalakerfið, einkarekna kerfið með stofurekstri sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og svo heilsugæslan, sem er blanda af opinberum rekstri og einkarekstri. Það er afar takmörkuð samvinna og samfella í upplýsingagjöf þarna á milli og neytandinn velur hvert hann sækir þjónustuna að mestu leyti út frá orðspori viðkomandi heilbrigðisstofnunar, ekki mælanlegum árangri við meðferð sjúklinga og þjónustugæðum. Fjármagnið í heilbrigðiskerfinu leitar því ekki endilega þangað sem það nýtist best, sem býður hættuna heim á sóun og meiri óhagkvæmni en ella,“ segir Björn.

Björn leggur til að fjárfest verði í upplýsingakerfi eða miðlægum gagnagrunni sem heldur utan um allar opinberar tölur í heilbrigðiskerfinu um það hvernig sjúklingum reiðir af eftir að þeir sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það myndi gera bútað kerfi heildstæðara. Björn hefur áður lagt til að hægt sé að mæta auknum útgjöldum með hærri kostnaðarþátttöku efnameiri sjúklinga, með sjúklingagjöldum eða skattgreiðslu.

„Við vitum ekki hvað við erum að fá fyrir peninginn sem fer í heilbrigðiskerfið, hvort sem það er í einkarekna kerfið eða hið opinbera. Það eru til margvíslegar sjúkrahúsatölur, eins og yfir lifun eftir sýkingar, krabbamein, hjartaáfall, heilablóðfall og svo framvegis. En við erum ekki með mælanlegar útkomur á því hvernig þörfum sjúklingsins var mætt og mælanlegan kostnað fyrir hvern sjúkling. Það er ekki nóg að vita bara að sjúklingurinn lifi af.

Við vitum til dæmis ekki hvað nýjar mjaðmir endast lengi eftir mjaðmaaðgerð við Landspítalann samanborið við til dæmis Akranes, Akureyri eða klíníkina í Ármúla. Ef við fjárfestum í upplýsingakerfi sem heldur utan um slíkar upplýsingar, þá sjáum við hvar virð­ið er mest fyrir sjúklinginn. Þá mun rekstrarform heilbrigðis­þjónustunnar ekki skipta öllu máli, vegna þess að þá standa einkareknar og opinberar heilbrigðisstofnanir jafnfætis hvað varðar fjármögnun og kröfur um þjónustugæði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .