RÚV tapaði 271 milljón króna á seinasta rekstrarári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Stjórn RÚV segir skýringuna einkum liggja í því að RÚV hafi ekki fengið óskert útvarpsgjald eins og búist hafi verið við. Þá hafi lög sem tóku gildi um seinustu áramót takmarkað getu félagsins til að afla sér auglýsingatekna.

Í tilkynningu kemur fram að sala á eignum RÚV sé í undirbúningi til að létta á skuldastöðu félagsins.

Mikil útgjaldaaukning þrátt fyrir hagræðingu

Fram kemur að ráðist hafi verið í hagræðingaraðgerðir vegna bágrar skuldastöðu félagsins. Ef ársreikningurinn er skoðaður kemur í ljós að mikil útgjaldaaukning hafi orðið hjá RÚV á milli rekstrarársins 2012-2013 og 2013-2014, þrátt fyrir hagræðingu. Þannig hafi rekstrargjöld RÚV aukist um rúmar 411 milljónir á milli ára. Útgjaldaaukning varð í öllum útgjaldaflokkum.

Skuldir aukast um tæpan milljarð

Sé litið á skuldastöðu RÚV hefur hún aukist á milli ára. Þannig skuldaði félagið 6.586 milljónir í lok rekstrarársins en 5.619 milljónir árinu áður. Lætur því nærri að skuldir RÚV aukist um milljarð á milli ára. Á móti kemur að eignir félagsins aukast um 695 milljónir á milli ára, úr 6.272 milljónum í 6.967 milljónir. Skuldir sem hlutfall af eignum eru því orðnar tæp 95%, borið saman við tæp 90% árið áður.