Hagnaður fasteignafélagsins Eikar nam 646 milljónum króna á nýliðnum þriðja ársfjórðungi miðað við 743 milljónir króna á sama fjórðungi árið 2018. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var í dag. Hagnaður af rekstri fyrir matsbreytingar og afskriftir jókst þó milli ára og var 1.508 milljónir króna samanborið við 1.389 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi á síðasta ári.

Minni hagnaður nú miðað við sama tímabil í fyrra skýrist af lægri matsbreytingu, söluhagnaði og afskriftum, sem námu 159 milljónum króna á síðasta fjórðungi miðað við 460 milljónir í fyrra. NOI-hlutfall (e. net operating income ratio) var 76,9% miðað við 76,5% á þriðja ársfjórðungi í fyrra.

Rekstrartekjur voru 2.231 milljónir króna á fjórðungnum sem er rúmlega 5% meira en á sama tímabili 2018 þegar þær námu 2.112 milljónum króna. Leigutekjur voru um 85% af rekstrartekjunum eða 1.871 milljónir króna en voru 1.722 milljónir á þriðja fjórðungi 2018.

Rekstrarkostnaður var nánast óbreyttur miðað við sama fjórðungi í fyrra eða 723 milljónir króna sem er einni milljón meira en á síðasta ári. Þar af var kostnaður vegna skrifstofur og stjórnunarkostnaður 87 milljónir sem er níu milljónum meira en á sama fjórðungi í fyrra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að rekstur félagsins hafi gengið vel fyrstu níu mánuði ársins og hafi verið í takti við áætlanir. Rekstrartekjur félagsins á fyrstu níu mánuðum ársins námu 6.471 milljónum króna aukast um 7,1% milli ára. Þar af voru leigutekjur 5.507 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 4.188 milljónum króna og jókst um 6,7% milli ára. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 2.678 m.kr. og heildarhagnaður tímabilsins nam 2.142 m.kr. og jókst um rúm 26% milli ára.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir félagsins 101.496 milljónum króna þann 30. september 2019. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 95.034 milljón króna. Heildarskuldir félagsins námu 69.769 milljónum króna í lok september og jukust um 4.201 milljónir frá áramótum. Þar af voru vaxtaberandi skuldir 59.484 milljónir króna og tekjuskattsskuldbinding 7.036 milljónir króna.

„Félagið hefur yfirfarið afkomuspá sína fyrir árið 2019. Ljóst er að sú óvissa sem hefur verið á vinnumarkaði og í ferðaþjónustu á árinu sem og framkvæmdir á herbergjum Hótels 1919 hefur haft neikvæð áhrif á afkomu og afkomuspá hótelsins. Þrátt fyrir það gerir félagið ráð fyrir því að EBITDA ársins verði innan 1% skekkjumarka en líkur eru á að niðurstaða ársins verði við neðri mörkin,“ segir í tilkynningu félagsins.