Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Festi eykst um 47% á fyrsta ársfjórðungi milli ára samkvæmt afkomutilkynningu sem félagið sendi út í gær byggt á drögum að uppgjöri félagsins .

EBITDA rekstrarhagnaður Festar, sem á meðal annars N1, Krónuna og ELKO, nam 1,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi miðað við ríflega einn milljarð króna á sama tímabili fyrir ári. Þar munar að miklu leyti um áhrif heimsfaraldursins á fyrsta fjórðung fyrir ári en fyrstu kórónuveirusmitin greindust  hér á landi í lok febrúar árið 2020.

Í tilkynningunni segir að rekstur á fyrsta ársfjórðungi 2021 hafi gengið umfram áætlanir hjá ELKO, Krónunni og N1 þrátt fyrir samkomutakmarkanir stjórnvalda. Gera megi ráð fyrir að lífið og þar með reksturinn fari að færast í eðlilegt horf eftir mitt árið miðað við áætlanir stjórnvalda um bólusetningar og hjarðónæmi.

Vegna rekstrarbata á fyrsta fjórðungi hefur félagið hækkað afkomuspá sína fyrir árið um 400 milljónir króna í 7.900 til 8.300 milljóna króna EBITDA rekstrarhagnað árið 2021. Þó er settur sá fyrirvari við það að reksturinn sé sveiflukenndur og árstíðabundinn og megnið af rekstrarhagnaðinum falli til á öðrum og þriðja ársfjórðungi Til samanburðar nam EBITDA rekstrarhagnaður félagsins 7,06 milljörðum árið 2020 og 7,6 milljörðum árið 2019.