*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 16. júlí 2021 07:05

Rekstrar­hagnaður Festar jókst um helming

Festi hefur hækkað afkomuspá sína fyrir 2021 um 800 milljónir króna í ljósi bættrar afkomu á öðrum ársfjórðungi.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) hjá Festi á öðrum ársfjórðungi nam 2,5 milljörðum króna, samanborið við 1,7 milljarða króna á síðasta ári, að því er kemur fram í afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér í gærkvöldi. Afkoman jókst um 47% á milli ára líkt og á fyrsta ársfjórðungi.  

„Rekstur ársfjórðungsins gekk umfram áætlanir hjá N1, ELKO og Krónunni en í samanburðinum þá höfðu áhrif COVID-19 heimsfaraldursins umtalsverð neikvæð fjárhagsleg áhrif á fjórðunginn í fyrra,“ segir í tilkynningunni. 

Í ljósi niðurstöðunnar á öðrum fjórðungi og mati stjórnenda á horfum út árið þá hefur afkomuspá Festar verið hækkuð um 900 milljónir króna, eða í 8,8-9,2 milljarða króna. Félagið hafði þegar hækkað afkomuspána um 400 milljónir vegna rekstrarbata á fyrsta ársfjórðungi. 

Söluhagnaður af fjórum fasteignum, þar af þremur til Reita, sem tilkynnt var um í lok síðasta mánaðar, er ekki tekin með í afkomuspá ársins þar sem fyrirvörum um viðskiptin hefur ekki verið aflétt. 

Sjá einnig: Ganga inn í kaupin á Austurvegi

Árshlutareikningur Festar fyrir annan ársfjórðung 2021 verður birtur þann 28. júlí næstkomandi. 

Stikkorð: Festi