*

miðvikudagur, 19. febrúar 2020
Innlent 3. september 2018 11:55

Rekstrarhagnaður Samherja dróst saman

Hagnaður Samherja var nánast óbreyttur milli ára. Rekstrarhagnaður dróst saman um 23%, en söluhagnaður eigna bætti það upp.

Ritstjórn
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Samherja nam tæpum 14,4 milljörðum króna í fyrra, nánast óbreytt frá fyrra ári þegar hann nam rúmum 14,3 milljörðum, samkvæmt tilkynningu á vef félagsins. Rekstrarhagnaður dróst saman um 23% milli ára, úr 16,9 milljörðum í 13, en 5 milljarða söluhagnaður eigna brúaði mismuninn.

Rekstrartekjur námu 76,7 milljörðum króna og drógust saman um tæp 10% milli ára, fyrst og fremst vegna gengisstyrkingar krónunnar, en félagið gerir upp í evrum, og í þeim nam samdrátturinn aðeins 3,2%. Að sama skapi drógust rekstrargjöld saman um 6,3%, í krónum talið, en stóðu svo til í stað í evrum.

Afskriftir námu 3,1 milljarði króna, nánast óbreytt frá fyrra ári, og hagnaður frá hlutdeildarfélögum nam 2,74 milljörðum, samanborið við 3,15 milljarða árið áður.

Heildareignir félagsins voru 134,3 milljarðar króna, rúmum fimmtungi meira en 2016, og skuldir 44,2 milljörðum, sem er 64% aukning. Eigið fé nam því 90,1 milljarði og jókst um 7,5%, og eiginfjárhlutfall var 67%, nokkuð lægra en á fyrra ári þegar það var 76%.

Stærsta breyting Samherja á liðnu ári er sögð skipting samstæðunnar í tvö félög, innlend starfsemi heyri áfram undir Samherja hf., en Samherji Holding ehf. hafi tekið við erlendum eignum.

„Samherji skilaði góðri afkomu á síðasta ári eins og undanfarin ár. Svo góð niðurstaða er ekki sjálfgefin við núverandi aðstæður heldur afrakstur mikillar samvinnu starfsmanna Samherja sem og samstarfsaðila víðsvegar um heiminn. Við gleðjumst að sjálfsögðu yfir því. Við héldum áfram uppbyggingu á innviðum Samherja á síðasta ári með mikilli endurnýjun á skipaflota. Við höldum áfram á þessu ári, m.a. með nýrri landvinnslu á Dalvík. Tekið var á móti þremur nýjum skipum hér í Eyjafirði þegar Kaldbakur EA, Björgúlfur EA og Björg EA komu til landsins. Í Þýskalandi tók DFFU á móti tveimur skipum, Cuxhaven NC 100 og Berlin NC 105. Það er hægara sagt en gert að koma nýjum tæknivæddum skipum með miklum og flóknum búnaði af stað jafn hnökralaust og raun ber vitni. Skipin hafa reynst vel og má segja að áhafnirnar og stjórnendur hafi unnið ákveðið þrekvirki og vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir.“ sagði Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.