Samkvæmt nýrri skýrslu Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög dróst rekstrarhagnaður sveitarfélaga saman um 19% á milli áranna 2013 of 2014. Samdráttur hjá Reykjavíkurborg skýrir rúmlega helming samdráttar í rekstrarhagnaði allra sveitarfélaganna.

Skýrsla Íslandsbanka er unnin af Greiningu og sveitarfélagateymi Íslandsbanka og er stuðst við ársreikninga frá árinu 2014 hjá 61 sveitarfélögum sem spanna um 99% íbúa landsins. Samtals eru íslensk sveitarfélög 74. Frá 1990 hefur þeim fækkað um meira en helming í kjölfar sameiningu.

Starfsemi sveitarfélaga er skipt í A- og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta til eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Undir A-hluta falla lögbundin verkefni ásamt öðrum tilfallandi verkefnum. Dæmi um lögbundin verkefni er rekstur leikskóla og grunnskóla, staðbundin félagsþjónusta og málefni fatlaðra. Í B-hluta eru fyrirtæki/stofnanir sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins eða að meirihluta á ábyrgð þess og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Fyrirtæki/ stofnanir í B-hluta eru að mestu eða öllu leyti fjármagnaðar með þjónustugjöldum. Dæmi um B-hluta fyrirtæki er hafnarsjóður, vatnsveita, rafveita, hitaveita, fráveita og sorphirða.

Fram kemur í skýrslunni að rekstur 88% sveitarfélaga standa undir núverandi skuldsetningu (A- og B-hluti). Auk þess stendur rekstur 77% sveitarfélaga undir núverandi skuldsetningu (A-hluti). Séu niðurstöðurnar fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaganna fyrir árið 2014 bornar saman við árið 2013 kemur í ljós að veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum hefur dregist saman að meðaltali sem skerðir, að öllu öðru óbreyttu, hæfni sveitarfélaga til að standa undir afborgunum lána.

Rekstur og fjárhagsstaða sveitarfélaga hafa verið að styrkjast áheildina litið allt frá árinu 2009. Flest sveitarfélaganna hafa lagt áherslu á hagræðingu í rekstri og að greiða niður skuldir. Hins vegar hafa heildarfjárfestingar og framkvæmdir sveitarfélaganna verið í lágmarki, en þó hafa nokkur sveitarfélög hafa þó byggt hjúkrunarheimili á framangreindu tímabili. Eru þau samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélags þar sem ríkið gerir langtímaleigusamning við sveitarfélagið.

Dregið hefur úr skuldsetningu sveitarfélaganna en hlutfallið stóð í um 61% fyrir árið 2014.

Íbúaþróun jákvæð

Í skýrslunni kemur fram að íbúaþróun hafi verið jákvæð undanfarin tvö ár. Hlutfallsleg fólksfjölgun hefur orðið á öllum landssvæðum nema tveimur, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Mest var aukningin á Suðurnesjum (3,9%) en þar á eftir komu höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Vesturland. Ef horft er á síðastliðin tíu ár kemur í ljós að mesta fjölgunin á sér stað innan áðurgreindra landsvæða, þ.e. innan Suðurnesja (28,7%), höfuðborgarsvæðisins (14,7%), Suðurlands (11,8%) og Vesturlands (7,9%).

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér .