Rekstrarhagnaður eignarhaldsfélagsins Aurum Holdings, sem Baugur er leiðandi hluthafi í, jókst um 313% á síðasta ári, úr 287 milljónum króna í 1,2 milljarða króna. EBITDA hækkaði um 136%, eða úr 736 milljónum í 1,7 milljarða króna. Undirliggjandi sala jókst um 5,1% á árinu.

Í árslok 2006 lauk samstæðan við kaupin á Mappin & Webb og Watches of Scotland og endurfjármögnun skulda. M&P var keypt á 10,5 milljónir punda, hluthafar fjárfestu 28 milljón pund í samstæðunni, og lánum til hluthafa, að upphæð 40,9 milljónum punda var breytt í hlutafé.

Í frétt Daily Telegraph segir að rekstrarreikningarnir hafi verið gerðir opinberir aðeins örfáum dögum eftir að Jurek Piasecki, stjórnarformanni Goldsmiths, var sagt upp störfum. Hann á 15% hlut í fyrirtækinu og hefur starfað fyrir það í 25 ár. Í fréttinni eru leiddar líkur að því að honum hafi verið sagt upp í kjölfar ágreinings við Baug á stjórnarfundi.