Rekstrarhagnaður, EBIT, Eimskips nam rúmum 13 milljónum evra á 2. fjórðungi reikningsársins og batnaði um 83% á milli ára. Tekjur drógust saman um 6,5% en gjöld um 8,6%, sem skýrir batann.

Virðisrýrnun eigna hafði þó mest áhrif á afkomuna, því að hún nam 176 milljónum evra. Tap félagsins eftir skatta nam 215 milljónum evra, en var 101 milljón á sama tímabili í fyrra.

Bætt afkoma í flutningum en lakari í frystigeymslum

Afkoman fyrir afskriftir, EBITDA, batnaði einnig borið saman við fyrsta fjórðung og stafar það af bættri afkomu í flutningum vegna hagræðingaraðgerða, að því er segir í tilkynningu félagsins. Afkoma af frystigeymslurekstri versnaði hins vegar og skýrist einkum af versnandi afkomu í Asíu og Bandaríkjunum.

Eignir félagsins minnkuðu um fimmtung frá lokum síðasta reikningsárs og námu 1,5 milljörðum evra. Eigið fé er neikvætt um 390 milljónir evra.

Eins og fram hefur komið stendur yfir mikil endurskipulagning á rekstri og eignaraldi Eimskipafélagsins. Í dag var tilkynnt um stofnun nýs flutninga- og vörustjórnunarfyrirtækis, sem lið í þeirri endurskipulagningu, en endurskipulagningin er háð samþykki lánardrottna. Vb.is sagði nánar frá þessum breytingum fyrr í dag.