Rekstrarhagnaður 22.813 fyrirtækja sem voru í rekstri bæði árin 2004 og 2005, paraður samanburður, nam 14,1% af tekjum árið 2005 en var 10,9% árið áður. Hagnaður af reglulegri starfsemi þessara fyrirtækja var 14,4% af tekjum árið 2005 og 11,3% árið 2004. Þetta kemur meðal annars fram í nýju hefti Hagtíðinda.

Þegar litið er á afkomu allra fyrirtækja í gagnasafninu 27.629 árið 2005 og 29.352 árið 2004, er hún hlutfallslega mjög svipuð og afkoma þeirra sem voru í pöruðum samanburði. Á árinu 2005 nam rekstrarhagnaður þeirra 14,7% af tekjum en árið áður var hann 10,7%. Hagnaður af reglulegri starfsemi nam 14,9% af tekjum árið 2005 og 10,8% af tekjum árið 2004.

Í yfirliti þessu eru fyrirtæki í öllum atvinnurekstri, að meðtöldum fyrirtækjarekstri hins opinbera, þ.m.t. fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga, sem rekin eru í hlutafélags- eða samlagsformi og orku-, veitu- og fjölmiðlafyrirtæki, en önnur starfsemi hins opinbera er undanskilin. Starfsemi lífeyrissjóða er einnig undanskilin.