Í frétt í Viðskiptablaðinu, sem kom út í dag, kemur fram að rekstur Húsasmiðjunnar hefur gengið vel síðustu misseri og velti félagið 12 milljörðum á síðasta ári. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði hefur aukist um 50% frá árinu 2002 en þá var hann í kringum einn milljarð króna. Þar sem kaupin á félaginu voru fjármögnuð með skuldsetningu og sölu eigna á sínum tíma eru skuldir þess í dag mjög litlar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nema nettóskuldir Húsasmiðjunnar rúmlega rekstrarhagnaði félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði og nettó vaxtaberandi skuldir eru tvisvar sinnum sú upphæð en á móti koma vaxtaberandi eignir sem félagið á. Frá kaupunum 2002 hefur tekist að greiða niður tveggja milljarða króna skuldir og er það langt umfram áætlanir félagsins.

Á næstu dögum verður gengið frá endanlegum hluthafalista Eignarhaldsfélags Húsasmiðjunnar en gert er ráð fyrir að Baugur Group verði stærsti hluthafinn með 40-45% hlut en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins vildu fjárfestar, aðrir en Baugur, kaupa hlut Árna og Hallbjörns í Húsasmiðjunni. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki samkeppnisyfirvalda.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.