Rekstrarhagnaður, EBIT, Orkuveitu Reykjavíkur dróst saman um 47% á milli ára á fyrsta fjórðungi ársins og nam 961 milljón króna í ár. Afkoman eftir fjármagnsliði og skatta batnaði hins vegar verulega, eða um 19 milljarða króna. Á fyrsta fjórðungi í ár var 1,8 milljarða króna hagnaður hjá fyrirtækinu en 17,2 milljarða tap á fyrsta fjórðungi í fyrra.

Jákvæðir gengisliðir

Tapið í fyrra stafaði af gríðarlegu gengistapi vegna gjaldmiðlasamninga og af gangvirðisbreytingum upp á samtals 21,4 milljarða króna, en í ár voru þessir liðir jákvæðir um 2,4 milljarða króna. Jákvæður viðsnúningur þessara liða nemur því um 23,8 milljörðum króna á milli ára. Án þessara jákvæðu gengisliða hefði Orkuveitan verið rekin með tapi fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi.

Rekstrartekjur Orkuveitunnar á tímabilinu jukust um tæpan hálfan milljarð króna á milli ára og námu rúmum 6,5 milljörðum króna.

Eiginfjárhlutfall var 19% í lok mars sl. en var 18,6% um áramót.

Dregið úr fjárfestingum vegna óvissu

Í tilkynningu Orkuveitu Reykjavíkur til Kauphallarinnar segir um horfur að vegna óvissu í íslensku efnahagslífi sé dregið úr fjárfestingum fyrirtækisins í ár og að gripið hafi verið til víðtækra aðhaldsaðgerða.