Tekjur hins opinbera námu rúmum 88 mö.kr. og útgjöld 90 mö.kr. á fyrsta fjórðungi ársins. Halli á rekstri ríkis og sveitarfélaga nam því tæplega 2 mö.kr. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Sem hlutfall af tekjum nam hallinn 2,2%. Rekstrarhallinn var 1,4 ma.kr. hjá ríkissjóði en 0,6 ma.kr. hjá sveitarfélögum. Fjárfestingar hins opinbera námu 6,6 mö.kr. á tímabilinu sem er um 7,3% af heildarútgjöldum.

Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn samandregið talnaefni yfir fjármál ríkis og sveitarfélaga á rekstrargrunni innan ársins en ekki eingöngu árstölur eins og verið hefur. Að þessu sinni nær talnaefnið yfir fyrsta ársfjórðung 2004. Framvegis verður þetta efni birt ársfjórðungslega í lok næsta ársfjórðungs eftir að viðkomandi fjórðungi lýkur. Talnaefni þetta er meðal annars unnið vegna þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem íslensk stjórnvöld hafa tekið á sig í tengslum við EES-samninginn, en það mun þó enn frekar koma innlendum stjórnvöldum að gagni við mat á hagþróun innan ársins. Þá mun þetta nýja efni nýtast Hagstofunni við gerð ársfjórðungslegra þjóðhagsreikninga.

Efnið er tvískipt. Annars vegar er efni frá Fjársýslu ríkisins um tekjur og gjöld ríkissjóðs á 1. fjórðungi ársins og hins vegar er áætlað heildaryfirlit yfir tekjur og gjöld allra sveitarfélaga í landinu á sama tíma. Tölurnar frá sveitarfélögunum byggja á úrtaki 7 sveitarfélaga með 50% íbúafjöldans og hefur það úrtak verið fært upp til heildar. Að þessu sinni hefur ekki reynst unnt að birta mikla sundurliðun á efninu og takmarkast birtingin við rekstrartekjur, rekstrargjöld og tekjujöfnuð auk þess sem fjárfesting er sýnd sérstaklega. Á næstunni verður unnið að því í samvinnu við Fjársýsluna og sveitarfélögin að koma þessari skýrslusöfnun í fastan farveg.