Velta Teymis hf. og EBITDA afkoma er yfir væntingum í fjarskiptahlutanum og samkvæmt áætlun í upplýsingatæknihlutanum, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrarhorfur út árið eru í samræmi við þær áætlanir sem fyrirtækin innan samstæðunnar höfðu gert. Allar einingar Teymis hf. voru reknar með jákvæðri EBITDA afkomu á fyrstu níu mánuðum ársins.

Vaxtaberandi skuldir Teymis hf. að frádregnu handbæru fé og peningamarkaðsbréfum nema 23,6 milljörðum króna 1. október 2006. Að mati stjórnar og stjórnenda er það forgangsverkefni að létta greiðslubyrði og skuldastöðu félagsins og hefur þegar verið gripið til aðgerða til þess að ná því markmiði.

Gengið hefur verið frá samkomulagi um væntanlega sölu á fasteignum Teymis hf. fyrir tæpa tvo milljarða króna og verður andvirðinu varið til niðurgreiðslu skulda.

Stjórn félagsins staðfesti hinn 29. nóvember 2006 samkomulag við Landsbanka Íslands hf. um endurfjármögnun félagsins þannig að skammtímaskuldum félagsins að fjárhæð 8,4 milljarðar króna verði breytt í langtímaskuldir. Við það minnkar vaxta- og afborgunarbyrði félagsins verulega.

Stjórn félagsins tók hinn 29. nóvember 2006 ákvörðun um að stefna að hlutafjárútboði á fyrsta ársfjórðungi 2007 og hafa stærstu hlutahafar gefið yfirlýsingu um þátttöku. Hlutafé verður aukið um fjóra milljarða kr. að markaðsvirði. Landsbanki Íslands hf. mun annast útboðið.

Í kjölfar skiptingar Kögunar hf. í Kögun ehf. og Hands Holding hf. sem samþykkt var á hluthafafundi Dagsbrúnar hf. 17. nóvember sl., eignaðist Teymi hf. 34,5% hluti í Hands Holding hf. Í tengslum við endurskipulagningu á Hands holding hf. hefur Teymi hf. yfirtekið lán að fjárhæð 1.850 m.kr. sem breytt verður í hlutafé í félaginu. Jafnframt hefur Teymi hf. keypt 9% hlut af 365 hf. og er eignarhlutur Teymis hf. í Hands holding hf. í kjölfar þessara aðgerða 49%.

Aðrar breytingar á stofnefnahagsreikninginn skýrast af yfirtöku Og fjarskipta ehf., dótturfélags Teymis hf., á dreifikerfi Digital Ísland sem hefur í för með sér hækkun varanlegra rekstrarfjármuna um 2.050 m.kr. og 650 m.kr. aukningu í vaxtaberandi skuldum. Að sama skapi lækka lán til tengdra aðila um 1.400 m.kr.