Hagnaður Íbúðalánasjóðs á síðasta ári nam um 986 milljónum króna, samanborið við 34,5 milljarða króna tap árið á undan. Þessi mikla breyting á milli ára skýrst að mestu af mikilli virðisrýrnun lána sem bókfærðar voru árið 2010. Þá nam virðisrýrnunin um 36 milljörðum króna en í fyrra aðeins um 270 milljónum króna.

Þetta kemur fram í ársreikningi sjóðsins sem nú hefur verið birtur.

Rekstrartekjur Íbúðalánasjóðs námu um 3,4 milljörðum króna á síðasta ári, samanborið við tæpa 3 milljarða króna árið áður. Aðrar tekjur hækka um 284 milljónir milli ára og munar þar mest um leigutekjur íbúða í eigu sjóðsins þar sem tekjur aukast um 325 milljónir milli ára á sama tíma og innheimtutekjur lækka um tæpar 40 milljónir.

Rekstrarkostnaður sjóðsins jókst þó töluvert á milli ára eða um 775 milljónir króna. Þannig nam rekstrarkostnaðurinn á síðasta ári tæpum 2,2 milljörðum króna, samanborið við 1,4 milljarða króna árið 2010.

Launakostnaður sjóðsins jókst um tæpar 165 milljónir króna á milli ára, eða tæp 34%, og nam 652,5 milljónum króna á árinu. Í uppgjörstilkynningu sjóðsins segir að rekja megi hækkunina til fjölgun stöðugilda um 18, áhrifum kjarasamninga og hækkunar annars starfsmannatengds kostnaðar.

Töluverður kostnaður er bókfærður undir liðnum „annar rekstrarkostnaður“ en hann jókst um tæpar 600 milljónir króna á milli ára. Innheimtukostnaður vegna fasteigna til sölu hækkaði um 215 milljónir króna, rekstur tölvukerfa hækkaði um 33,6 milljónir króna, kostnaður við gerð verðmata hækkaði um 106 milljónir króna. Mesta athygli vekur þó að kostnaður vegna umboðsmanns skuldara nam á árinu 221 milljón króna og hækkaði um 216 milljónir króna á árinu.

Eigið fé Íbúðalánasjóðs var í árslok 9,6 milljarðar samanborið við rúma 8,6 milljarða í árslok 2010. Eiginfjárhlutfall sjóðsins var í árslok 2,3% en var 2,2% í upphafi árs. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.

Hreinar vaxtatekjur sjóðsins námu 2,7 milljörðum króna samanborið við 2,5 milljarða árið 2010. Vegnir meðalvextir af fjármögnun sjóðsins voru í árslok 4,30% og vegnir meðalútlánavextir 4,57%.