Rekstrarkostnaður Kaupþings á síðasta ári nam 5,1 milljarði króna og lækkaði um 3,5 milljarða, eða 40,7% á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu vegna ársreiknings bankans sem birtur var í morgun.

Rekstrarkostnaður ársins nam 0,3% af nafnvirði heildareigna sem voru 2.014 milljarðar króna í árslok og 0,7% af verðmæti heildareigna. Tæplega helmingur kostnaðarins er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar. Þá nema greiðslur Kaupþings vegna virðisaukaskatts 399 milljónum króna, eða sem svarar til tæplega 8% af heildarkostnaði.

Verðmæti heildareigna Kaupþings í lok árs 2013 nam 778,1 milljarði króna og lækkaði um 68,7 milljarða. Lækkunin skýrist nær alfarið af neikvæðum gengisáhrifum vegna styrkingar krónunnar sem námu 59,6 milljörðum auk greiðslna vegna samþykktra og umdeildra forgangskrafna sem námu 35,2 milljörðum króna.

Raunvirði heildareigna hækkaði um 23,2 milljarða króna. Heildareignir Kaupþings í erlendum myntum eru metnar á 630,3 milljarða króna en eignir í íslenskum krónum eru metnar á 147,8 milljarða. Þar vegur eign bankans í Arion banka þyngst.

Samþykktar kröfur í kröfuskrá nema 2.803,6 milljörðum króna. Að meðtöldum ágreiningskröfum nema útistandandi kröfur á hendur Kaupþingi 2.879,3 milljörðum króna og hafa þær lækkað um 115,5 milljarða á tímabilinu. Ástæður þessarar lækkunar má rekja til úrlausna ágreiningsmála, krafna sem kröfuhafar hafa afturkallað, greiðslna vegna forgangskrafna og krafna sem endanlega hefur verið hafnað.