Verslun Rekstrarlands, dótturfélags Olís, í Vatnagörðum 10 sem selur rekstrarvörur verður lögð niður í núverandi mynd á komandi vori. Um er að ræða lið í skipulagsbreytingum innan fyrirtækjasviðs Olís sem hafa snertiflöt við framtíðartilhögun á stórnotendasölu innan Haga samstæðunnar, að sögn Frosta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Olís.

Stefnt er að tilfærslu á hreinlætis-, rekstrar- og heilbrigðisvörum innan Olís yfir í nýja einingu innan Haga sem samhliða yfirtekur hlutverk Rekstrarlands. Þannig verði allir þættir flutnings- og sölukeðju þessara vöruflokka á einni hendi. Fram til þessa hefur umræddum vöruflokkum verið sinnt innan ólíkra eininga sem hefur bæði reynst flókið fyrirkomulag og ósjálfbært í rekstrarlegu samhengi.

Olís mun reka Rekstrarland í óbreyttri mynd fram að vori en þá mun nýja einingin taka við keflinu. Gert er ráð fyrir að á starfsstöð nýrrar einingar verði sýningarsalur og vöruafgreiðsla.

„Kjarnamarkmiðið með þessum breytingum er að skerpa betur á áherslum Olís og þá sérstaklega þegar kemur að kjarnavörum fyrirtækisins. Við höfum verið með ansi flókið og víðtækt vöruflokkaframboð innan Olís. Sölukerfið hefur að sama skapi verið býsna flókið í skipulagi og að einhverju marki ósamræmt í gegnum allt landið,“ segir Frosti.

„Með þessum breytingum sjáum við fram á að ná fram aukinni hagkvæmni, skýrari áherslum og um leið stöndum við vörð um sérstöðu Olís sem felst í að þjónusta viðskiptavini um allt land með útibúanetinu okkar. Við teljum að þetta breytta þjónustuskipulag komi til með að standast betur tímans tönn. Þetta eru ekki síst mikilvægar breytingar með þau orkuskipti sem eru í farvatninu í huga, en þau koma til með að hafa mikil áhrif á starfsemi olíufyrirtækja á næstu áratugum.“

Frosti segir að þessum breytingum fylgi óhjákvæmilega uppsagnir. Á móti kemur að nokkur fjöldi starfsfólks kemur til með að flytjast frá Olís yfir í umrædda nýja einingu Haga.

Áhersla á netsölu og aðlögun á skipulagi útibúanets

Skipulagsbreytingarnar fela m.a. í sér aðlögun á þjónustuskipulagi útibúanets Olís. Frosti segir að útibúin hafi verið ólík innbyrðis fram til þessa, þar sem nokkur hafa verið rekin sem verslanir en önnur sem afgreiðslulagerar og söluskrifstofur. Nú standi til að útibúin verði rekin sem afgreiðslulagerar og söluskrifstofur sem hafi reynst vel til þessa, m.a. á Akureyri og Reyðarfirði.

„Hugmyndin er að samhliða tilflutningi á þessum vöruflokkum þá samræmum við þetta skipulag þvert á útibúanetið og komum til með að reka útibú Olís um allt land sem afgreiðslulagera og söluskrifstofur. Við munum nýta tímann fram að vori í að undirbúa breytingarnar með viðskiptavinum okkar og stuðla að því að þær gangi sem allra best fyrir sig.“

Útibúin sem munu umbreytast úr hefðbundnum verslunarrekstri yfir í afgreiðslulager og söluskrifstofu eru staðsett á Akranesi, í Ólafsvík, Bolungarvík, Grindavík og Njarðvík.

Þá segir Frosti að annar liður í áherslubreytingunum sé aukin áhersla á sölu í gegnum netið. Það á bæði við um nýju rekstrareiningu Haga og stórnotendasöluna á þeim vöruflokkum sem eftir standa innan Olís.