Afkoma A- og B-hluta bæjarsjóðs Álftaness fyrir óreglulega liði var neikvæð um 89,8 milljónir króna í fyrra. Óreglulegir liðir voru hins vegar jákvæðir um einar 1.643,3 milljónir og endanleg afkoma bæjarsins því jákvæð um 1.553,5 milljónir.

Þessir óreglulegu liðir eru sérstakt framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, niðurfelling skulda við lánastofnanir og uppgjör leigusamnings við Eignahaldsfélagið Fasteign vegna sundlaugar.

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta fyrir óreglulega liði var neikvæð um 263,2 milljónir árið 2011 og endanleg niðurstaða þess árs var neikvæð um 381,2 milljónir. Stefnt var að því að afkoma fyrir óreglulega liði í ár yrði jákvæð um 18,9 milljónir, en það markmið náðist ekki.

Samkvæmt ársreikningi 2012 eru helstu kennitölur eftirfarandi. Veltufjárhlutfall er 0,46, eiginfjárhlutfall er neikvætt um 4%. Skuldir og skuldbindingar í árslok námu 3.332 milljónum kr. Veltufé frá rekstri án óvenjulegar liða er 127 m.kr. Handbært fé í árslok var 110 þúsund kr.