*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 11. júní 2020 15:14

Rekstrarniðurstaða neikvæð um 1,3 milljarða

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar er neikvæð um 1.324 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 964 m.kr. á tímabilinu.

Ritstjórn
Höskuldur Marselíusarson

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar er neikvæð um 1.324 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði jákvæð um 964 milljónir á tímabilinu. Niðurstaðan er því 2.288 milljónum króna lakari en áætlað var. Þetta kemur fram í ársreikning Reykjavíkurborgar. 

Lakari niðurstaða skýrist einkum af lægri skatttekjum sem reyndust 22.908 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir 24.585 milljónir króna á þessu tímabili, auk þess sem tekjur af sölu byggingaréttar eru undir áætlun.

„Lækkun tekna má rekja til samdráttar í efnahagslífinu sem var þegar farinn að birtast og að einhverju leyti til heimsfaraldurs kórónuveiru Covid-19," segir í tilkynningu frá borginnni.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 1.171 milljónir króna en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 1.586 milljónir króna þannig að niðurstaðan var 2.756 milljónir króna undir áætlun.

Rekstraruppgjörið var lagt fram í borgarráð í dag í samræmi við tímaáætlun árshlutauppgjöra á árinu 2020.