Rekstrarniðurstaða Sangerðisbæjar var neikvæð um 64,1 milljón króna á árinu 2010, samkvæmt samanteknum ársreikningi A og B hluta. Eigið fé í árslok nam 1.159,9 milljónum. Fastafjármunir á árinu 2010 nema 4.849 milljónum og eignir eru samtals 6.575 milljónir. Skuldir og skuldbindingar eru samtals 5.415 milljónir króna, að meðtöldum leiguskuldbindingum sem nema 2.542 milljónum.

Fyrri umræða um ársreikning bæjarfélagsins fer fram á fundi bæjarstjórnar í dag. „Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu 2010 námu 1.190,7 millj. kr. en á árinu 2009 urðu þær 1.165,0  millj. kr. samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta. Fyrir A hluta námu rekstrartekjur árið 2010 1.035,2 millj. kr. en 1.045,0 millj. kr. fyrir árið 2009. Álagningarhlutfall útsvars var 12,7% en lögbundið hámark þess er 13,28%.“

Laun og launatengd gjöld hjá samstæðunni voru 700,2 millj. kr. Fjöldi starfsmanna var 152 á árinu í 126 stöðugilum. Skatttekjur sveitafélagsins voru 541 þús. kr. á hvern íbúa.

Á árinu 2010 voru helstu framkvæmdir þær að byggt var við Miðhús, félagsmiðstöð aldraðra, og áfram unnið við gatnagerð og sjóvarnir.

Eignarhaldsfélagið Fasteign keypti af Sandgerðisbæ nýbyggingu grunnskólans á árinu 2010 og á þá allar byggingar grunnskólans, íþróttahúsið og Samkomuhúsið.