Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Vopnafjarðarhrepps í fyrra var jákvæð um 72,6 milljónir króna, en var jákvæð um 254,7 milljónir árið 2011. Lítill munur var milli ára í rekstrartekjum eða rekstrargjöldum. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 112,8 milljónir í fyrra og jákvæð um 110,3 milljónir árið 2011. Munurinn liggur því í fjármagnsliðunum, sem voru neikvæðir um 40,3 milljónir í fyrra, en voru jákvæðir um 144,5 milljónir árið 2011. Skiptir þar mestu að árið 2011 seldi hreppurinn eignarhluti í félögum fyrir 269,2 milljónir króna.

Efnahagsreikningur A- og B-hluta Vopnafjarðarhrepps breyttist nokkuð milli ára. Eignir hækkuðu úr 1.222,6 milljónum í 1.274,7 milljónir og skuldir og skuldbindingar lækkuðu úr 717 milljónum í 675 milljónir. Eigið fé hækkaði því úr 505,6 milljónum í árslok 2011 í 599,7 milljónir um síðustu áramót.