Gengi hlutabréfa Icelandair hefur fallið um ríflega 55% á síðustu 12 mánuðum og hafa fjárfestar haft miklar áhyggjur af framtíðarspám félagsins.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir rekstrarniðurstöðu ársins þó vera þá næstbestu í 80 ára sögu félagsins, þrátt fyrir krefjandi aðstæður. Uppgjör félagsins birtist rétt fyrir klukkan níu í kvöld.

Hagnaður ársins 2016 eftir skatta nam 89,1 milljón bandaríkjadala og er þar með talsvert lakari en hagnaður ársins 2015, þegar félagið hagnaðist um 111,2 milljónir bandaríkjadala.

EBITDA á fjórða ársfjóðungi nam 2,5 milljónum dala samkævmt tilkynningunni, samanborið við 22,9 milljónir dala á sama fjórðungi í fyrra.

Lækkun meðalfargjalda og gengisþróun skýra að mestu leiti lakari afkomu á fjórða ársfjórðungnum. Heildartekjur jukust aftur á móti um 12% á fjórða ársfjórðungnum.

Félagið telst einnig vera fjárhagslega í góðu ástandi. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins nemur 44% og námu handbært fé og markaðsverðbréf 250,1 milljón dala í árslok 2016.

Félagið spáir EBITDA upp á 140 til 150 milljónir árið 2017. Félagið flutti 3,7 milljónir farþega í millilandaflugi og hefur verið að auka umsvif sín í hótelstarfseminni. Herbergjanýting nam samkævmt tilkynningu félagsins 82% á árinu sem var að líða.