Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða aðalsjóðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar lagist um 50% milli ára. Hallinn fer úr kr. 58 milljónum í kr. 29 milljónir samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð vegna ársins 2005 sem var samþykkt við seinni umræðu í sveitarstjórn 28 des. 2004. Áætlunin einkennist af verulega bættri rekstrarafkomu, lækkun skulda, minni lántöku og hærri tekjum.

Rekstrarniðurstaða allrar samstæðu sveitarfélagsins lagst milli ára um 38%. Hallinn fer úr kr. 136 milljónum í kr. 99 milljónir. Afskriftir sem ekki hafa áhrif á fjárstreymi eru áætlaðar kr 145 milljónir. Ný lántaka er áætluð kr. 154 milljónir sem er 38% lægra en á fyrra ári en afborgarnir lána á árinu eru áætlaðar að verði kr. 238 milljónir. Handbært fé frá rekstri hækkar um 30% og veltufé frá rekstri hækkar um 88%.

Fjárfestingar á árinu eru áætlaðar kr. 114 milljónir sem er lækkun um kr. 36 milljónir frá árinu 2004. Munar þar mestu um íþróttaleikvanginn á Sauðárkróki. Heildarskuldir samstæðunnar allrar lækka um kr 10 milljónir. Launagreiðslur hækka um 11% en annar rekstrarkostnaður lækkar um 3%.

Ársæll Guðmundsson sveitastjóri Skagafjarðar verður í viðtali í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu í dag kl. 16.05.