Rekstrarhagnaður Reykjavíkurborgar fyrir fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.327 milljónum króna á fyrri helmingi árs. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 2.149 milljónir króna en gert var ráð fyrir að þeir yrðu neikvæðir um 2.367 milljónir króna. Heildarniðurstaða var því jákvæð um 3.070 milljónir króna.

Óendurskoðaður árshlutareikningur verður lagður fyrir borgarráð í dag.

Heildarniðurustaða A og B hluta Reykjavíkurborgar er öllu betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Heildarniðurstaða A hluta borgarinnar er neikvæð um 855 milljónir króna og var EBITDA 1.396 milljónir króna. Gert var ráð fyrir að EBITDA yrði neikvæð um 2.426 milljónir króna og heildarniðurstaða um 1.546 milljónir króna.

Gert var ráð fyrir að heildarniðurstaða yrði neikvæð um 1.299 milljónir króna.

Rekstrartekjur A hluta voru 29.168 milljónir króna eða 727 milljónir yfir áætlun.  Rekstrargjöld voru 30.564 milljónir króna eða um 304 milljónir undir áætlun.

Skuldir hækka

Heildarskuldir A og B hluta að frátöldum skuldbindingum eru 305.750 milljónir króna en voru 296.268 milljónir króna í árslok 2009 og hafa því aukist um 9.482 milljónir króna. Skuldbindingar hækkuðu um 171 milljón króna á tímabilinu. Eigið fé A og B hluta hækkar um 16.735 milljónir úr 110.175 milljónum í 126.910 milljónir, sem skýrist að stærstum hluta af rekstrarniðurstöðu tímabilsins og breytingu á reikningsskilaaðferð.

Eigið fé hækkar við breytta reikningsskilaaðferð

Borgin hefur breytt um reikningsskilaaðferð og er það gert til samræmis við álit Reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga. Breytingin felst í því að leigusamningar fasteigna og annarra mannvirkja og leiguskuldbindinga vegna þeirra eru færðir í efnahagsreikning. Einnig eru lóðir og lendur sem gefa af sér tekjur eignfærðar.

Eigið fé í efnahagsreikningi borgarinnar hækkar um 13,6 milljarða við þessar breytingar.

Rekstrarniðurstaða bæði A hluta og A og B hluta er 467 milljónum króna lakari á tímabilinu janúar - júní 2010 með nýrri reikningsskilaaðferð.