Rekstrartap (EBIT) fiskeldisfyrirtækisins Arctic Fish á fjórða ársfjórðungi 2020 nam 0,41 evru á hvert kíló af þeim 2.988 tonnum sem félagið slátraði á tímabilinu, sem félagið segir vera vegna lágra verða á mörkuðum sakir heimsfaraldurs.

Miðað við þetta sláturmagn var rekstrartapið því 1.225.080 evrur, eða sem samsvarar um 192 milljónum íslenskra króna miðað við núverandi gengi. Framleiðslukostnaður félagsins nam rétt rúmlega 4 evrum fyrir hvert selt kíló af slægðum lax, en félagið segist stefna að lækkun hans áframhaldandi með stærðarhagkvæmni og aukinni framleiðslu.

Á sama tíma var EBITDA félagsins jákvæð á árinu um sem nemur 4,2 milljónum evra en heildarsalan á árinu var um 7.443 tonn af slægðum laxi. Félagið gerir ráð fyrir að ná því markmiði að framleiða um 12 þúsund tonn á þessu ári og ná að halda því framleiðslumagni í þrjú ár.

Til að ná því markmiði er frekari stækkun seiðaeldisins í burðarliðnum auk þess sem nokkur eldisleyfi eru á lokastigi umhverfismats, og því gerir félagið ráð fyrir að geta tvöfalda framleiðsluna innan fjögurra ára.

„Framtíðaráform félagsins gera því ráð fyrir að árið 2025 verði heildarframleiðslan yfir 24.000 tonn,“ segir í tilkynningu félagsins.

Félagið segir markaðsaðstæður hafa verið erfiðar og áhrif viðbragða við heimsfaraldri kórónuveirunnar og lokanir á nýjum mörkuðum í Asíu, sem voru í mikilli sókn fyrir veiruna, verið verri en fyrirtækið gerði ráð fyrir.

„Markaðir í Bandaríkjunum sem og lykilmarkaðir í Evrópu voru ekki í jafnvægi og verð á laxaafurðum var lágt í ársfjórðungi þar sem afurðaverð eru venjulega í hámarki. Almennt er gert ráð fyrir að markaðsþróunin verði jákvæð á seinni hluta ársins 2021.“

Arctic Fish lax
Arctic Fish lax
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Skrá á markað en ætla að halda sínum hlut

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í byrjun nóvember síðastliðinn stefnir félagið á skráningu á markað í Noregi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, en núverandi eigendur helmings hlutar í Arctic fish, Norway Royal Salmon, hyggast kaupa helming bréfanna í komandi hlutafjáraukningu samhliða skráningunni.

„Félagið er statt í miðju skráningarferli á Norska hlutabréfamarkaðinn Euronext Growth í Osló en megin áherslan undanfarið hefur verið að kynna félagið og starfsemi þess fyrir innlendum fjárfestum sem hefur gengið vel,“ segir í tilkynningunni um áformin.

„Eins og áður hefur komið fram í tilkynningum félagsins þá eru það DNB, Pareto Securities og Arion Banki sem eru ráðgefandi í ferlinu. Gert er ráð fyrir að hlutafjárskráningunni ljúki á fyrsta ársfjórðungi 2021.“