Tekjur lyfjaþróunarfyrirtækisins deCODE Genetics á öðrum ársfjórðungi voru 10,4 milljónir bandaríkjadala (um 743 milljónir króna), en tekjur fyrirtækisins voru 11,4 milljónir dala (um 812 milljónir króna) á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynningu Decode.

Tekjur fyrstu sex mánuði ársins eru 1,46 milljarðar króna, en á sama tíma í fyrra voru tekjur deCODE 1,49 milljarðar, segir í tilkynningunni.

Rekstrartap á öðrum ársfjórðungi var 1,3 milljarður króna (18,3 milljónir dala), en á sama tíma í fyrra var tap fyrirtækisins 947 milljónir króna (13,3 milljónir dala). Aukinn kostnaður vegna þróunar og rannsókna á aðallyfjaþróunarverkefnum fyrirtækisins er sagður vera ástæða þessa aukna taps á rekstrinum, segir í tilkynningunni.

Rannsóknar- og þróunarkostnaður vegna sérstakra lyfjaþróunarverkefna deCODE var 938 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, en á sama tíma í fyrra var kostnaðurinn 781 milljónir króna, segir í tilkynningunni.