*

fimmtudagur, 6. ágúst 2020
Innlent 16. júlí 2020 07:00

Rekstrartap Kjarnans nam sjö milljónum

Rekstrartekjur fjölmiðilsins námu 59,6 milljónum króna og rekstrargjöld voru 65,8 milljónir á árinu 2019.

Ritstjórn

Fjölmiðlafyrirtækið Kjarninn miðlar ehf. var rekið með 5,7 milljóna króna tapi á árinu 2019, sem er um 2,9 milljónum meira en árið 2018 þegar félagið tapaði 3,8 milljónum, samkvæmt ársreikningi 2019. Rekstrartekjur hækkuðu um 642 þúsund krónur milli ára og námu 59,6 milljónum.

Rekstrargjöld námu 65,8 milljónum samanborið við 61,5 milljónir árið áður. Afskriftir voru 837 þúsund krónur. Laun og launatengd gjöld vega þar þyngst en þau voru 54,5 milljónir á árinu sem er um 6,9% hækkun frá fyrra ári þegar þau voru tæp 51 milljón. 

Tap ársins fyrir skatta nam 7 milljónum en um 1,3 milljónir tekjuskattsinneign var færð meðal inneigna í efnahagsreikning félagsins. Tekjuskattsinneign félagsins nam 13,7 milljónum í lok ársins samkvæmt efnahagsreikning.

Eignir félagsins námu 29,6 milljónum í árslok 2019 og jukust um 3,5 milljónir milli ára. Eigið fé nam 15,4 milljónum og skuldir voru 14,2 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var því 52% í lok árs. 

Stærstu eigendur Kjarnans eru HG80 ehf., í eigu Hjálmars Gíslasonar, með 18,3% hlut, Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, með 17,8%, Birna Anna Björnsdóttir með 12,2%, Magnús Halldórsson með 11,7% og Þórður Snær Júlíusson með 10,4%. 

Stikkorð: Kjarninn