Rekstrarhagnaður Reita fasteignafélags hf. fyrir fjármagnsliði fyrstu 6 mánuði ársins 2011 nam 2.751 m.kr. Verðbólga og gengislækkun íslensku krónunnar skýrir tap á tímabilinu að fjárhæð 1.803 m.kr. Efnahagur félagsins er sterkur samkvæmt tilkynningu frá félaginu en í lok júní var eigið fé félagsins rúmlega 18,3 ma.kr. af tæplega 94,6 ma.kr. heildareignum. Frá endurskipulagningu Reita fasteignafélags í árslok 2009 hefur rekstur félagsins verið mjög stöðugur. Framhald var á þessari þróun á fyrstu sex mánuðum ársins 2011 þrátt fyrir að umtalsverður viðsnúningur hafi átt sér stað í fjármagnsliðum félagsins.

Rekstur Rekstrartekjur félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins námu 3.735 milljónum króna samanborið við 3.747 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði nam 2.751 milljónum króna samanborið við 2.749 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010. Rekstrartap tímabilsins nam eins og áður sagði 1.803 milljónum króna samanborið við hagnað að fjárhæð 1.906 milljónir króna fyrir sama tímabil árið áður. Samkvæmt tilkynningu eru breytingar á milli ára eru því nær eingöngu fólgnar í óhagstæðari þróun fjármagnsliða en á sama tímabili á síðasta ári. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 4.752 milljónir króna en voru neikvæðir um 589 milljónir króna fyrir sama tímabil árið 2010.

Í tilkynningu segir að Reitir fasteignafélag sé eitt þeirra félaga sem féllu í hendur bönkunum eftir hrunið seinnihluta ársins 2008. Félagið var endurskipulagt fjárhagslega í árslok 2009, með þeim hætti að vaxtaberandi skuldir félagsins námu um 80% af efnahagsreikningi þess. Slík skuldsetning veitir lítið svigrúm til að taka á sig áföll vegna aukinnar verðbólgu, hækkandi vaxta og veikingar krónunnar, en um 20% af skuldum félagsins er í evrum. Stærstur hluti skuldanna er í íslenskum krónum með verðtryggðum vöxtum. Mikilvæg forsenda hagfelldrar þróunar í rekstri Reita fasteignafélags næstu misserin er jákvæð þróun efnahags- og atvinnumála sem og raunveruleg kaupmáttaraukning. Væntingar um slíkt hafa til þessa ekki gengið eftir. Íslenska krónan veiktist umtalsvert á fyrri hluta ársins 2011 gagnvart erlendum myntum og kjarasamningar reyndust dýrir. Afleiðingin var verðbólga umfram viðmið og áætlanir. Þá hafa fyrirheit stjórnvalda um ýmsar framkvæmdir og aðgerðir ekki gengið eftir. Rekstrarhorfur út árið eru því áfram erfiðar vegna óvissu í þróun efnahagsmála.

Starfsemin

Reitir fasteignafélag hf. er stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði útleigu atvinnuhúsnæðis. Í fasteignasafni félagsins eru um 410.000 fermetrar í um 130 fasteignum víðsvegar um landið. Fjöldi leigusamninga er um 700. Nýtingarhlutfall Reita af heildartekjum fyrstu 6 mánuði ársins 2011 er um 94%. Í fasteignasafni Reita er að finna verslunarhúsnæði í helstu verslunarmiðstöðvum landsins, skrifstofuhúsnæði af ýmsum toga og margskonar lager- og iðnaðarhúsnæði. Meðal þekktra fasteigna má nefna Kringluna, Hilton Nordica, Hótel Reykjavik Natura, Kauphallarhúsið, Holtagarða, Höfðabakka og nokkrar af perlum íslenskrar byggingarsögu sem staðsettar eru í miðbæ Reykjavíkur. Reitir þjóna stórum og smáum fyrirtækjum sem og einstaklingum. Meðal helstu leigutaka eru Hagkaup, Bónus, 10-11, Icelandair Hotels, Actavis, NTC, Reykjavíkurborg, Landsbankinn, Fasteignir ríkissjóðs, Sjóvá, 365 miðlar, Iceland Express, Efla verkfræðistofa og fleiri mætti telja.