Rekstrartap Ríkisútvarpsins (RÚV) jókst verulega á árinu 2005 í 196,2 milljónir króna úr 49,7 milljónir króna árið áður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Einnig hefur eiginfjárstaða stofnunarinnar versnað og var eigið fé neikvætt um 186,2 milljónir króna en var jákvætt um 10,2 milljónir króna í upphafi ársins.

Rekstrartekjur á árinu 2005 voru 3,55 milljarðar króna og rekstrargjöld voru 3,3 milljarðar, segir í tilkynningunni. Hagnaður af rekstri fyrir afskriftir (EBITDA) varð 271,7 milljónir króna, samanborið við 391 milljón á seinasta ári.

Afskriftir fastafjármuna voru 258,5 milljónir króna og aukast um 29,7 milljónir á milli ára. Þá urðu hrein fjármagnsgjöld 209,4 milljónir og jukust um 33,3 milljónir á milli ára, segir í tilkynningu frá RÚV.

Þar segir að stór hluti rekstarhallans sé til kominn vegna kostnaðarliða sem voru utan áætlunar, svo sem úrskurðar frá skattayfirvöldum vegna verktakagreiðslna. Hins vegar varð rekstrarkostnaður meiri en áætlað var en þó varð hækkun hans ekki meiri en sem nemur almennri kostnaðarþróun á milli ára.

?Þó svo að nokkur hækkun hafi orðið á auglýsinga- og kostunartekjum varð tekjuhækkun ársins minni en almenn kostnaðarþróun þar sem ekki fékkst hækkun á afnotagjaldi á árinu. Þá varð reksturinn þungur á árinu, meðal annars vegna liða sem ekki voru áætlaðir og varúðarafskrifta þeim tengdum," segir í tilkynningunni.

?Á undanförnum árum hefur Ríkisútvarpið tekist á við stöðugan rekstrarvanda sem má rekja til minnkandi rauntekna og skuldbindinga vegna greiðslna af lífeyrisláni. Þessi rekstrarvandi hefur meðal annars leitt til þess að fjárfestingar haf orðið minni en skyldi. Fjárfestingar ársins voru 138,2 milljónir króna."