Hagnaður Eimskips eftir skatta á öðrum ársfjórðungi 2007 nam 0,2 milljónum evra eða 17 milljónum króna samanborið við tap upp á 34,6 milljónir evra eða tæpa þrjá milljarða á sama tímabili árið 2006, segir í tilkynningu.

Rekstrartekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi 2007 námu 397 milljónum evra eða 33 milljörðum króna samanborið við 173 milljónir evra eða 14,4 milljarða á sama tíma árið 2006 og jukust því um 130% milli ára, segir í tilkynningu. Rekstrargjöld námu 378 milljónum evra eða 31 milljarði króna samanborið við 170 milljónir evra eða 13 milljarða árið áður.

Fjármagnsgjöld voru 14 milljónir evra. Mikill fjármagnskostnaður skýrist af skammtímaláni vegna yfirtöku félagsins á Atlas Cold Storage í upphafi ársins, eða um 50% af heildarfjármagnsgjöldum. Stefnt er að sölu fasteigna Atlas í lok rekstrarársins 2007 og andvirði sölunnar nýtt til að greiða niður skuldir, segir í tilkynningunni.

?Afkoma á öðrum ársfjórðungi var í takt við áætlanir og það sama má segja um fyrri árshelming í heild sinni. Velta á fyrri árshelmingi er tæpar 800 milljónir evra sem er meira en helmingur af áætlaðri veltu 2007 upp á 1.450 milljónir evra. EBITDA var 65 milljónir evra sem er um helmingur af settu marki fyrir allt árið. Þar af skilar flutningastarfsemi 60 milljónum evra og flugreksturinn fimm milljónum evra. Rekstur Eimskips einkenndist af miklum vexti í tekjum og betri afkomu,? segir Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips.