Ytri aðstæður eru erfiðar Landsvirkjun í augnablikinu. Sterk eiginfjárstaða fyrirtækisins skiptir miklu þegar kemur að samskiptum við lánadrottna. Mikil óvissa er um hvernig álverð mun þróast á næstu misserum.

Fyrir árslok 2012 eru 180 milljónir evra, um 28 milljarðar króna, á gjalddaga hjá Landsvirkjun. Endurfjármögnun á lánum fyrirtækisins er eitt mikilvægasta verkefnið framundan. Eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku hafnaði fjárfestingabanki Evrópu (EIB) að veita Landsvirkjun lán í tengslum við byggingu Búðarhálsvirkjunar. Var þeirri skýringu komið til stjórnvalda og fyrirtækisins að vegna þess að Icesave-deilan væri óleyst þá gæti stjórn EIB ekki annað en hafnað láninu að svo stöddu. Það er þó ekki útilokað að frekari viðræður Landsvirkjunar og bankans muni að lokum leiða til þess að bankinn láni fyrirtækinu. Jafnvel innan skamms tíma, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Heildarkostnaður við Búðarhálsvirkjun er áætlaður um 200 milljónir dollara eða sem nemur 24 milljörðum króna.

Lokaðir lánamarkaðir

Allt frá hruni bankanna haustið 2008 hafa lánamarkaðir verið svo að segja lokaðir fyrir íslensk fyrirtæki. Opnun þeirra er lífsspursmál fyrir Landsvirkjun. Fyrirtækið hefur þó enn traust erlendra stórbanka samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Þýski stórbankinn Deutsche Bank hefur meðal annars að eigin frumkvæði kannað hvernig markaðurinn bregst við skuldabréfum Landsvirkjunar, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Lánakjörin eru enn með þeim hætti að þau teljast óhagstæð og vart ákjósanleg. Um er að ræða 5,5% álag ofan á Liborvexti (vexti á millibankamarkaði í London) á skuldabréf til fimm til sjö ára.

Kjörin gefa vísbendingu um að erfitt sé um vik fyrir Landsvirkjun að verða sér úti um fjármagn á góðum kjörum í augnablikinu. Þeir bankar sem standa að sambankalánum til fyrirtækisins, m.a. Barclays, Sumitomo, JP Morgan, SEB og fleiri hafa þó trú á fyrirtækinu og hafa gefið það til kynna í samskiptum við forsvarsmenn fyrirtækisins samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

-Nánar í Viðskiptablaðinu.