Þrátt fyrir að verð á íbúðarhúsnæði í Danmörku hafi lækkað mikið eða á bilinu 10-25% að undanförnu hefur verð á skrifstofu- og atvinnuhúsnæði þar í landi staðið í stað eða hækkað og sama gildir einnig um Svíþjóð og í þessum löndum gengur þokkalega að fá langtímafjármagn í fasteignaverkefni. Verð á skrifstofu- og atvinnuhúsnæði hefur heldur ekki lækkað á Íslandi en þar er ástandið þó alveg gerólíkt því í sem er í Skandinavíu; eignir seljast hreinlega ekki og búið er að skrúfa að miklu eða mestu leyti fyrir alla fjármögnun og vextir þess fyrir utan það háir að slík fjármögnun getur vart borgað sig.

Þetta segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri Landic Property. Hann bendir á að önnur lögmál gildi um markaðinn fyrir skrifstofu- og atvinnuhúsnæði en íbúðarhúsnæði og að sá fyrrnefndi fylgi ekki endilega eftir þróun á íbúðamarkaði eins og sjáist til að mynda af ólíkri verðþróun á atvinnu- og íbúðarhúsnæði í Danmörku. Þá séu verðsveiflur á honum jafnan minni enda verðlagning grundvölluð á langtímasjónarmiðum.

Ekki kólnun heldur algert frost

Skarphéðinn dregur enga dul á að ólíku sé saman að jafna þegar komi að rekstrarumhverfi og ástandinu hér á landi og í Skandinavíu og sá samanburður sé Íslandi allur í óhag og það mjög svo: gríðarlega háir vextir og geysimiklar sveiflur á krónunni. Þannig hafi til að mynda efnahagsreikningur Landic Property stækkað um 70 milljarða íslenskra króna á fyrsta fjórðungi ársins vegna falls krónunnar sem sýni hversu afleitt það sé fyrir félagið að vera með uppgjör sitt í krónum. Hins vegar sé rétt að taka fram að gengisbreyting krónunnar hafi ekki bein áhrif á efnahag félagsins því jafnvægi sé milli eigna og skulda hvað varði gjaldmiðla. „Markaðurinn hér á landi er miklu grynnri en markaðurinn erlendis í atvinnuhúsnæði. Það er einfaldlega stopp hér núna og menn fá ekki fjármögnun á húsnæði enda væri það óður maður sem færi að fjármagna húsnæði á þeim vöxtum sem bjóðast á innlendum mörkuðum í dag. Það er ekki bara kólnun heldur frost. Það er hins vegar ekki ástæða til að ætla að það verði verðlækkun á atvinnuhúsnæði líkt og menn hafa talað um að verði á íbúðarmarkaðinum. Þetta eru gerólíkir markaðir og atvinnuhúsnæðismarkaðurinn hefur einfaldlega staðið í stað.“

Ekkert val

Landic Property er með hátt í 80% af fasteignum sínum í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi en um fimmtung hér heima og er því í góðri stöðu til þess að bera saman ástandið hér og í Skandinavíu þar sem miklu meiri stöðugleiki hefur ríkt. Hér glími menn aftur á móti við afar óstöðuga mynt og gríðarlega háa vexti sem þýði að ekkert vit sé að fjárfesta í húsnæði við núverandi vaxtastig. Þá dregur Skarphéðinn ekki dul á að öll umræðan um Ísland og efnhagsástandið sé ekki til þess fallin að bæta stöðu íslenskra fyrirtækja að því er varði fjármögnun. „Ég held að það sé bara ein leið fær og það er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. Atvinnulífið allt er búið að átta sig á þessu en það er enn hluti af ríkisstjórninni sem er að berja hausnum við stein. Við höfum ekkert val. Ef við viljum halda lífskjörunum sem verið hafa í þessu landi og viljum halda alþjóðlegum fyrirtækjum hér þá er ekkert val.“ Skarphéðinn segir rekstrarumhverfi Landic Property hafa breyst eins og hjá öllum öðrum fyrirtækjum vegna óvissunar sem ríki vegna fjármálakreppunnar en við það bætist síðan óvissa vegna breytinga á gengi krónunnar og ekkert sé gert til þess að laga ástandið.

Skarphéðinn segir að menn hafi ekki skoðað þann kost alvarlega að flytja fyrirtækið úr landi. „En það er alveg á hreinu að þetta fyrirtæki mun ekki standa í svona óvissu aftur. Við munum komast úr þessari kreppu og ástandið mun jafnast. En við munum ekki taka þátt í annarri krónukreppu, það er einfaldlega ekki hægt. Öll fyrirtæki bæði hér og erlendis eru að upplifa áhrif af fjármálakreppunni þannig að við erum hvorki betur né verr sett að því leyti. En til viðbótar sitjum við uppi með það að hafa gjaldmiðil sem við verðum að færa okkar bókhald í en enginn skilur og allir skynja sem aukaáhættu í okkar rekstri.“