Rekstur álversins í Straumsvík er tryggður til ársins 2037.

Með vissum tæknilegum endurbætum á álverinu í Straumsvík er hægt að auka framleiðslugetu þess um allt að 40.000 tonn á ári og við það eykst aflþörf álversins um 75 MW.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsvirkjun.

Viðræðum sem átt hafa sér stað milli RTA og Landsvirkjunar um þetta mál er lokið með samkomulagi sem jafnframt inniheldur ákvæði um endurnýjun á eldra rafmagnssamningi.  Með samkomulaginu hækkar orkuverðið og rekstur álversins verður tryggður til lengri tíma en ella eða til ársins 2037.

Hafist handa við Búðarhálsvirkjun

Landsvirkjun hefur ákveðið að halda nú þegar áfram framkvæmdum við Búðarhálsvirkjun. Það er gert til að standa við samkomulag við Rio Tinto Alcan, eiganda álversins í Straumsvík, um orkusölu innan þess tímaramma sem þar er settur.

Fyrstu útboðsgögn vegna framkvæmdanna verða send út 11. ágúst nk.  Um er að ræða útboð á vélum og rafbúnaði.  Boðinn verður út í einu útboði vél- og rafbúnaður fyrir Búðarhálsvirkjun sem og fyrir virkjanir í neðri hluta Þjórsár.  Þetta er gert til þess að fá fram betra verð, auk þess sem verulegt hagræði hlýst af því að hafa samstæðan búnað í öllum virkjununum.  Í útboðinu verður valréttur á kaupum búnaðar fyrir virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, fram til síðari hluta næsta árs.  Ekki er hægt að ganga frá kaupum þess búnaðar fyrr en tilskilin leyfi vegna þeirra virkjana liggja fyrir.  Byggingarframkvæmdir vegna Búðarhálsvirkjunar verða boðnar út í haust.

Auk Búðarhálsvirkjunar undirbýr Landsvirkjun þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár; Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun.

Ný störf í Þorlákshöfn

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir einnig að nú standi yfir viðræður um orkusölu til nokkurra fyrirtækja sem yrðu væntanlega staðsett í Þorlákshöfn.  Landsvirkjun áformar að anna orkuþörf þeirra með byggingu virkjana í neðrihluta Þjórsár.  Takist að ná samningum við þau munu skapast nokkur hundruð ný störf á svæðinu.