Áætlað er að hátæknisetur líftæknifyrirtækisins Alvogen í Vatnsmýrinni skili Reykjavíkurborg rúmum 512 milljónum krónaí beinar tekjur. Fjárfesting vegna byggingarinnar er um átta milljarðar króna auk þess sem gert er ráð fyrir að fyrirtækið greiði árlega 54,7 milljónir króna í fasteignagjöld á ári.

Fram kemur í svari Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingafulltrúa borgarinnar, við fyrirspurn á netmiðlinum Spyr.is , um Alvogen, að byggingin muni skapa um 400 störf á framkvæmdartímanum en um 200 störf þegar á líður vegna starfssemi Alvogen. Fyrsta skóflustungan var tekin í nóvember í fyrra.

Í svari hans kemur m.a. fram gatnagerðargjöld vegna hátæknisetursins nemir tæpum 192,6 milljónum króna og að útsvarstekjur 200 starfsmanna muni nema í kringum 88,3 milljónum króna á ári. Í svarinu segir að gert sé ráð fyrir talsvert hærri útsvarstekjum vegna starfseminnar þar sem um er að ræða vel launuð störf í hátækniiðnaði. Ekki liggja fyrir upplýsingar um afleiddar tekjur, s.s. virðisaukaskattur vörugjalda og hagnaðar við sölu.