Eimskipafélaginu tókst ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að selja Air Atlanta Icelandic (AAI).

Upphaflegar verðmatshugmyndir innan Eimskipafélagsins voru upp á um 250 milljónir dala en í fyrrahaust var sú upphæð komin niður í einn fjórða af því eða um 60 milljónir dala og þá byggt á verðmæti í flugvélum.

AAI var síðan skipt í tvö félög, Northern Lights Leasing (NLL), félag um eignarhald og leigu á flugflota Air Atlanta, en hitt félagið hélt nafninu.

Eimskip seldi 51% hlut í NLL til eigenda Avion Aircraft Trading fyrir um 30 milljónir dala en átti áfram 49% eignarhlut sem er verðmetinn á 30 milljónir dala.

Áttu að forða AAI frá gjaldþroti

Rekstur Air Atlanta Icelandic (AAI) var hins vegar seldur á 0 krónur til stjórnenda félagsins með því skilyrði að þeir söfnuðu nýju hlutafé upp á 15 milljónir dala til þess að tryggja að félagið gæti staðið við skuldbindingar og færi ekki í gjaldþrot.

Ekki var fyrirsjáanlegt að kaupendur að rekstrinum gætu staðið við skuldbindingar sínar í lok síðasta árs og óljóst er hvort það hefur breyst.

Mikið tap hefur verið af rekstri AAI, eða sem nemur 70 milljónum dala, 6,4 milljörðum króna á núverandi gengi, árin 2006 og 2007.

28 milljónir ógreiddar

Niðurstaðan varð sem sagt sú að Air Atlanta Icelandic, sem á sínum tíma varð talið 250 milljóna dala virði, var selt í bútum fyrir samtals 30 milljónir dala og Eimskipafélagið á eftir sem áður enn 49% í félaginu Northern Lights Leasing.

Auk XL og Air Atlanta Icelandic lá flugstarfsemi Eimskips einnig í Avion Aircraft Trading, sem sér um viðskipti og leigu á flugvélum. Eimskipafélagið seldi 51% hlut í Avion Aircraft Trading (AAT) til stjórnenda og hluthafa í félaginu haustið 2006 fyrir 51 milljón dala og var kaupverðið að fullu greitt með bréfum í Avion Group á genginu 38,3 eða fyrir 3,5 miljarða.

Í júlí í fyrra var afgangurinn, eða 49%, síðan seldur stjórnendum og hluthöfum AAT fyrir 28 milljónir dala. Í lok nóvember hafði sú greiðsla hins vegar enn ekki verið innt af hendi en hún átti að tengjast sölu á AAT B 777-flugvélum til Lufthansa. Þessi greiðsla mun nú hafa verið innt af hendi.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í ítarlegri úttekt á erfiðleikum Eimskips í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .