Tap Avion Group nam 69 milljónum Bandaríkjadala (4,86 milljörðum króna) eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 32,4 milljón dala (2,28 milljarða krónu) hagnað á sama tímabili í fyrra, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Avion Group breytti fjárhagsári sínu á síðasta ári og er því samanburður milli ára ekki milli sömu mánaða. Þriðji ársfjórðungur 2006 miðast við tímabilið 1. maí 2006 til 31. júlí 2006 en þriðji ársfjórðungur 2005 miðast við 1. júlí 2005 til 30. september 2005. Breytt reikningsár er einnig ástæða þess að ekki eru til upplýsingar um fjórða ársfjórðung 2005.

Rekstur Avion Group á þriðja ársfjórðungi var undir væntingum stjórnenda. Námu heildartekjur félagsins fyrstu níu mánuði ársins 1.400 milljónum dala (98,6 milljörðum króna). Heildarkostnaður á fyrstu níu mánuðum ársins 2006 var 1.424 milljónir dala, segir í tilkynningunni.

Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 34 milljónum dala. Hlutfall EBITDA af rekstrartekjum var 2,5%.

Fjármagnsgjöld námu 59 milljónum Bandaríkjadala. Meginástæða hárra fjármagnsgjalda er óinnleyst gengistap uppá 34 milljónir dala hjá Eimskip. Rétt er að ítreka að óinnleyst gengistap hefur ekki áhrif á sjóðsstöðu félagsins. Skattar tímabilsins námu 14 milljónum dala. Niðurstaða rekstrarreiknings var neikvæð um 69 milljónir dala, segir í tilkynningunni.

?Ég vil leggja áherslu á að samanburðartölur frá fyrra ári sýna Avion Group áður en kaupin á Excel Airways Group voru fullkláruð og áður en mikilvægar yfirtökur á félögum á borð við Eimskip, Travel City Direct og Star Airlines áttu sér stað," segir Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group.

Áætlanir Avion Group fyrir yfirstandandi ár gera ráð fyrir minni framlegð en að var stefnt. Fjórði ársfjórðungur verður fyrirtækinu erfiður, aðallega vegna erfiðra markaðsaðstæðna í Bretlandi. Hryðjuverkaógn og þar af leiðandi miklar seinkanir, óvenju heitt sumar, og hert öryggisgæsla hafa sett strik í reikninginn og má búast við að framlegðarforsendur fjórða ársfjórðungs og þar með ársins í heild náist ekki, segir í tilkynningunni.