*

sunnudagur, 9. ágúst 2020
Innlent 29. ágúst 2019 14:16

Rekstur borgarinnar undir væntingum

Á fyrri helmingi árs var rekstrarniðurstaða kjarnastarfsemi Reykjavíkurborgar um 30% lægri en vænst var.

Ritstjórn
Dagur B. Eggertsson er borgarstjórinn í Reykjavík og oddviti Samfylkingarinnar sem myndar meirihluta í borginni með Pírötum, Vinstri grænum og Viðreisn sem kom inn í meirihlutann eftir síðustu kosningar.
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarniðurstaða A hluta ársreiknings Reykjavíkurborgar á fyrri helmingi ársins var 29% lakari en ráð hafði verið gert fyrir, eða 665 milljónum af 3.318 milljónum króna.

Nam afgangurinn því 1.653 milljónum króna, sem sveitarfélagið segist einkum skýrast af lægri tekjum af sölu byggingarréttar, lægri skatttekjum og hærri gjaldfærslu lífeyrisskuldbyndinga en áætlun hafði gert ráð fyrir.

Fá nærri 50 milljarða í skatttekjur

Milli ára þá jukust skatttekjur A hluta borgarinnar um 8,6%, úr 45,7 milljörðum í 49,7 milljarða króna, á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma drógust aðrar tekjur saman um ríflega fimmtung, eða 22,4%, úr 11,7 milljörðum í 9,1 milljarð króna.

Jukust rekstrartekjurnar þá í heildina, sem jafnframt innihalda um 3,7 milljarða jöfnunarframlag sem hélst svipað milli ára, úr tæplega 61 milljarði í 62,4 milljarða, eða um 2,3%.

Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um 7,4% í heildina, úr tæplega 54 milljörðum í 57,9 milljarða, en þar af hækkuðu laun og launatengd gjöld um rétt tæplega 8%, úr 30,9 milljörðum í 33,4 milljarða. Á sama tíma jókst annar rekstrarkostnaður um tæplega 8,2%, úr 20,5 milljörðum í 22,2 milljarða. Hækkun lífeyrisskuldbindinga var eilítið lægri en fyrir ári eða 2.350 milljónir í stað 2.500 milljónir.

Ef horft er til rekstrarniðurstöðunnar fyrir fjármagnsliði var hún hins vegar 43% lægri en áætlanir eða 1.377 milljónum, svo hún var 1.811 milljónir króna í stað 3.188 milljónir króna.

Með fyrirtækjunum var afgangurinn umfram væntingar

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkur, það er bæði A og B hluta sem inniheldur fyrirtæki í eigu borgarinnar, var hins vegar 15,2% betri en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða 1.177 milljónum króna. Nam hún því 7.745 milljónum króna í stað 6.568 eins og áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Fyrir fjármagnsliði var hún jákvæð um 11.667 milljónir króna, sem er jafnframt 2.907 milljónum króna, eða 20% lægri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir, það er 11.667 milljónir í stað 14.574 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 672.629 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 343.002 mkr og eigið fé var 329.626 mkr en þar af var hlutdeild meðeigenda 17.542 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 49,0% en var 49,4% um síðustu áramót.