Rekstrarniðurstaða A-hluta borgarsjóðs Reykjavíkur var jákvæð um 3,2 milljarða króna árið 2009, samanborið við 2,3 milljarða árið 2008.

Hins vegar nam rekstrartap af A og B Hluta um 1,7 milljarði króna en dregst verulega saman á milli ára en tapið nam um 71 milljarði króna árið 2008.*

Þetta kemur fram í ársreikningi Reykjavíkurborgar sem birtur var í dag.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að meginástæður þessarar niðurstöðu sé mikill árangur fagsviða borgarinnar við að ná markmiðum um sparnað og hagræðingu í rekstri, hærri útsvarstekjur en áætlun gerði ráð fyrir og breyting lífeyrisskuldbindinga sem lækkaði útgjöld. Þessi niðurstaða hafi náðst þrátt fyrir að gengisþróun hafi verið óhagstæðari og verðlag hærra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaðan lýsir í hnotskurn miklum sveigjanleika og góðu rekstrarhæfi.

Þá segir að hallann á B hluta borgarsjóðs megi einkum rekja til þess að gengis- og verðlagsþróun var óhagstæðari en það sem opinberar spár gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar fyrir fjármagnsliði var hins vegar jákvæð um rúmlega 9,7 milljarða sem er betri niðurstaða en árið 2008 og betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.

„Þetta eru mikil og góð tíðindi fyrir Reykvíkinga,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í tilkynningunni.

„Ársreikningurinn staðfestir mikinn árangur og sýnir í hnotskurn þá ábyrgu fjármálastjórn sem Reykjavíkurborg hefur ástundað á síðasta ári. Borgarsjóður er rekinn hallalaus og hagræðingaraðgerðir hafa skilað árangri. Við höfum með samstilltu átaki náð nægjanlegum sparnaði til að geta haldið uppi góðri grunnþjónustu án þess að þurfa að auka álögur á almenning á þessum erfiðu tímum,“ segir Hanna Birna ennfremur, en  tekið er fram í tilkynningunni að hjá Reykjavíkurborg voru hvorki skattar né gjaldskrár fyrir grunnþjónustu hækkaðar á árinu.

---

* Til A hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, og Eignasjóð. Til B hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Bílastæðasjóður Reykjavíkur, Faxaflóahafnir, Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.