Farice, sem rekur sæstrengi milli Íslands og Evrópu, skilaði tapi sem nemur 3,3 milljónum evra á fyrri helmingi ársins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu til kauphallar.

Þar kemur aftur á móti fram að rekstur fyrirtækisins hafi batnað á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði jókst um 17,1% frá sama tíma í fyrra og nam nú 4,3 milljónum evra. Þá námu heildartekjur fyrirtækisins 7,4 milljónum evra og jukust um 13,3% frá fyrra ári, aðallega vegna viðskipta tengdum gagnaverum.

Heildarkostnaður jókst hins vegar um 8,5% á milli ára og nam nú 3,2 milljónum evra. Eignir fyrirtækisins námu 94 milljónum evra í lok tímabilsins en skuldir voru 54 milljónir evra. Nam eigið fé fyrirtækisins því 40 milljónum evra í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfallið 42,4%.

Fjármagnskostnaður hefur töluverð áhrif á uppgjör Farice en hann nam nú 3,9 milljónum evra samanborið við 2,9 milljónir evra á síðasta ári. Þar af er 1,9 milljóna evra reiknaður gengismunur vegna styrkingar íslensku krónunnar en helsta lán félagsins er í íslenskum krónum. Afskriftir námu 3,7 milljónum evra og tapið því 3,3 milljónir evra.