Verslunarfyrirtækið Hagar skilaði 837 milljóna hagnaði á tímabilinu frá byrjun mars til lok maímánaðar, sem er fyrsti ársfjórðungur rekstrarárs Haga. Vörusala tímabilsins nam tæplega 18,4 milljörðum og jókst um 5,8% samanborið við sama tímabil árið áður.

Hagar birtu árshlutareikning sinn í dag, föstudag. Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 1.336 milljónum króna, samanborið við 1.137 milljónir árið áður. EBITDA framlegð jókst úr 6,5% í 7,3%. Framlegð jókst einnig, úr 4.185 milljónum í 4.447 milljónir króna, eða 24,2%. Rekstrarkostnaður hækkaði um 2,8% milli ára.

Hagnaður fyrir skatta nam rúmum milljarði króna en var tæpar 800 milljónir árið áður. Hagnaður eftir skatta á tímabilinu nam 837 milljónum, eða um 4,6% af veltu.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að rekstur félagsins á fyrsta ársfjórðungi rekstrarársins hafi verið umfram áætlanir og betri en á fyrra ári. Horfur næstu mánaða séu í takt við árangur félagsins á síðastliðnu ári, en litlar vísbendingar séu í dag um betri hag heimilanna og hafi það sérstaklega áhrif í sérvöruhluta félagsins.

Árshlutauppgjör Haga .