Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group segir fyrirtæki innan samstæðunnar hafa brugðist við háu eldsneytisverði og minnkandi eftirspurn með kostnaðaraðhaldi og tekjustýringu.

„Rekstur Icelandair, stærsta félagsins, er í járnum, og þar hefur verið gripið til aðhaldsaðgerða sem lofa góðu,“ segir Björgólfur í tilkynningu frá félaginu vegna uppgjörs annars ársfjórðungs .

„Afkoma Icelandair Group á öðrum ársfjórðungi er betri en á sama tíma á síðasta ári, sem er framar vonum í erfiðu rekstrarumhverfi í alþjóðaflugi,“ segir Björgólfur.

Fram kemur að Icelandair Group er nú með starfsemi í öllum  heimsálfum og 75% rekstrartekna koma erlendis frá, og aðeins 25% frá Íslandi.

Þá segir jafnframt að mikill vöxtur einkenni tímabilið, en þar munar mest um að tékkneska flugfélagið Travel Service kom inn í reksturinn. Það er nú næst stærsta félagið í Icelandair Group og var afkoma þess góð á öðrum ársfjórðungi.

„Í heild erum við að sjá jákvæðan árangur af fjölþættingu Icelandair Group og batnandi lausafjárstöðu. Unnið er samkvæmt aðgerðaráætlunum í öllum fyrirtækjum og við höfum samheldið og kraftmikið starfsfólk sem er reiðubúið að stýra félaginu í gegnum ókyrrðina í efnahagslífinu,“ segir Björgólfur í tilkynningunni.