Ársreikningur Snæfellsbæjar var kynntur fyrir bæjarstjórn bæjarins í gær.  Í tilkynningu frá Snæfellsbæ segir að rekstur hafi  gengið vel á árinu og að rekstrarniðurstaðan hafi verið nokkuð betri en áætlun hafi gert ráð fyrir, eða um 188 milljónir króna

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.078  milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að rekstrartekjur yrðu um 1.893 milljónir króna.

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi var jákvæð að fjárhæð um 188 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 47 milljónir króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 141 milljónir króna.  Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 2.752 milljónum króna skv. efnahagsreikningi.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.008 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 133 stöðugildum í árslok.

Veltufé frá rekstri var 212 milljónir króna og veltufjárhlutfall er 1,02.  Handbært frá rekstri var 258 milljónir króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.467 milljónum króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 4.485 milljónum króna í árslok 2015. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.282 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.733 milljónum króna, og lækkuðu þar með milli ára um 41 milljónir.  Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.185 milljónum króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 2.752 milljónum króna í árslok 2015.  Eiginfjárhlutfall er 63,03% á á árinu 2015 en var 59,44% árið áður.

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 219,2 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og ný lán voru tekin að upphæð 41 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 155,2 milljónir.