Rekstur Jarðborana gekk mjög vel á fyrri helmingi ársins og er umfram áætlanir segir í frétt Atorku til Kauphallarinnar. Á fyrstu 6 mánuðum ársins jókst velta Jarðboranna um rúmlega 23% og EBITDA nam 746 milljónum króna eða 26% af veltu samanborið við 555 milljónir króna eða 24% á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningunni kemur fram að horfur í rekstri Jarðborana eru mjög góðar og stefna Jarðboranir að því að auka verulega við innlend og erlend umsvif sín á næstunni. Á fyrsta ársfjórðungi var undirritaður stærsti samningur sem fyrirtækið hefur gert á erlendri grund. Nýr bor var tekinn í notkun í lok júlí. Þá er ljóst að borverkefni fyrir Orkuveitu Reykjavíkur mun skila hátt í 13,5 milljörðum króna í tekjur en í gær var greint frá viðbótarsamningi upp á 3,7 milljarða króna sem kemur til viðbótar við tæplega 10 milljarða króna samning.

Yfirtökutilboði Atorku í Jarðboranir lauk í janúar. Jarðboranir keyptu nýjan bor sem tekinn var í notkun í júlí s.l. og Jarðboranir undirrituðu í maí stærsta samning sem félagið hefur gert á erlendri grundu. Samið var við orkufyrirtækið GeoTerceira um borun á rannsóknar- og vinnsluholum á eyjunni Terceira á Azoreyjum.