Þann 20. apríl síðastliðinn tók Landsbankinn þá ákvörðun að fella niður rekstrarfyrirgreiðslu í formi yfirdráttarheimildar til ÚÍ1 ehf., rekstrarfélags Kanans. Rekstrarfélagið hefur nú selt tæki og tól útvarpsstöðvarinnar öðru félagi sem nefnist Skeifan 7 samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag. Í tilkynningu sem Morgunblaðið vitnar í frá ÚÍ1 segir að nýja félagið taki við öllum skuldbindingum gagnvart starfsfólki Kanans og að starfsemi stöðvarinnar muni halda áfram með óbreyttu sniði.

Einar Bárðarson segir aðgerðir bankans ekki síst óskiljanlegar í ljósi þess að bankarnir hafi fengið skýr fyrirmæli frá ríkisstjórninni um að vinna úr skuldamálum fyrirtækja sem sýna viðunandi rekstrarárangur. „Allt þetta tal um „beinu brautina" er því í raun innihaldslaust," segir Einar við Morgunblaðið í dag. Reksturinn hafi verið réttu megin við núllið síðustu níu mánuði.